Kynningarmál

Meðal markmiða EIMS er að vekja athygli á mikilvægi náttúruauðlinda Norðausturlands. Jarðhitinn eykur lífsgæði íbúa og í honum búa tækifæri til góðra verka. Vissir þú að jarðhitinn sparar heimilum á NA-landi 8 milljarða á ári í húshitunarkostnað? 

Jarðhitinn á NA-landi er mikilvæg náttúruauðlind sem hefur aukið lífsgæði íbúa verulega. Má þar nefna húshitun, rafmagnsframleiðslu og fjölbreytta atvinnustarfsemi. Þessar auðlindir eru ekki óendanlegar og því ber að gæta þess að nálgast alla nýtingu með skynsemi og sjálfbærni í huga. Gæta þarf þess að ganga ekki svo á gæðin að þau klárist eða verði fyrir varanlegum skaða. EIMUR hefur það hlutverk að vekja athygli á þessum gæðum, bæði gagnvart íbúum og einnig erlendum gestum. Til að svo megi vera hefur EIMUR m.a. safnað upplýsingum um jarðhitann og nýtingu hans og hyggst koma þeim upplýsingum á framfæri með áhugaverðum og fræðandi hætti. Upplýsingar hafa komið frá samstarfsaðilum EIMS auk þess sem háskólanemar hafa verið ráðnir í tímabundin verkefni sem felast í öflun gagna og kortlagningu auðlindarinnar. Einnig tekur EIMUR þátt í stóru kortlagningarverkefni, eða innviðagreiningu, á NA-landi í samstarfi við atvinnuþróunarfélögin á svæðinu. Um það verkefni er fjallað sérstaklega á heimasíðu EIMS. 

Framsetningu efnisins er skipt í fjóra meginþætti og byggir á þeim markhópum sem verið er að höfða til. Þeir eru:

 • íbúar svæðisins
  • Vissir þú? sem fjallað er sérstaklega um hér
 • erlendir gestir
  • Phillip Tretter, grafískur hönnuður og iðnhönnuður frá Þýskalandi, vinnur að því að hanna og móta kynningarefni fyrir erlenda gesti. Það mun byggja að miklu leiti á myndrænni framsetningu og leitast við að koma upplýsingum á framfæri með skapandi og skemmtilegum hætti.
 • nemendur elstu bekkja grunnskóla og vinnuskóla (12-18 ára)
  • leitað hefur verið eftir samstarfi við kennaradeild Háskólans á Akureyri um gerð námsefnis fyrir nemendur elstu bekkja grunnskóla og vinnuskóla. Það samstarf byggir á því að fela meistaranema að móta kennsluefnið í samræmi við aðalnámskrá og markmið EIMS um sjálfbærni og vitund.
 • yngsti aldurshópurinn (5-11 ára)
  • efnið er í þróun